Hrefna Hugósdóttir
Hjúkrunarfræðingur
26/9/2016
·
2
mínútna lestur
Heilsan

Andaðu - drekktu - hreyfðu - teygðu og skipulagðu

Næstu vikur eru annasamar hjá flestum og þá er gott að vera vel undirbúinn bæði andlega og líkamlega. Við hjá Auðnast ætlum að fjalla um heppilegar venjur út frá  ,,heil heilsu" hringnum og í þessari viku er áherslan á líkamlegt heilbrigði. Ef við viljum gera breytingar í lífinu er mikilvægt að snúa ekki öllu á hvolf heldur taka eitt skref í einu. Veldu eina til tvær venjur og framkvæmdu þær á hverjum degi alla vikuna. Vittu til, kannski mun það bæta og kæta heilsuna þína.

1) Vatnsdrykkja. 

Flest allir þurfa vökva líkamann aðeins betur og eftir því sem líður á daginn er líklegt að kaffi eða aðrir drykkir verði fyrir valinu. Vendu þig á að drekka eitt glas af vatni þegar þú vaknar og síðan að minnsta kosti fjórum sinnum yfir daginn. 

Til að auka líkur á að þú munir eftir venjunni skaltu tengja hana við hegðun sem þú framkvæmir daglega. Settu til dæmis glas við eldhúsvaskinn, fáðu þér vatnsglas áður en þú fyllir á kaffibollann í vinnunni, fylltu glas af vatni áður en þú byrjar að elda kvöldmatinn og dreyptu á því með eldamennskunni (gott að setja sítrónu, lime eða appelsínu út í).

2) Settu ávaxtaskál við útidyrahurðina þína. 

Það eykur líkur á því að þú grípir með þér ávöxt þegar þú ert að erindast. 

Allt of margir gleyma að gera ráð fyrir snarli á ferðinni og þegar svengdin verður óstjórnleg er algengt að leita í eitthvað sætt eða óhollt. Ávaxtaskál við útidyrahurðina er líka góð leið til að grípa í eitthvað hollt þegar við komum heim eftir langan dag. Bananar, nektarínur, epli, perur og ferskjur eru fullkomið millmál.

3) Notaðu daglegt líf til að hækka púlsinn. 

Ekki leggja í stæðið sem alveg við innganginn, notaðu frekar ferðina til að ganga rösklega og anda að þér fersku súrefni. Farðu einni stoppistöð fyrr út úr strætó og gakktu restina. Ekki nota lyftuna heldur gakktu upp stigann (ef þú vilt enn meiri áskorun – stígðu í annað hvert þrep) eða taktu lyftuna upp helminginn af leiðinni og labbaðu restina. Taktu hnébeygjur, hopp eða armbeygjur til dæmis inn á baðherberginu, í þvottahúsinu, á kaffistofunni, (ef þú ert hugrakkur... út á bílastæði). Öll hreyfing telst með... meira að segja kynlíf!

4) Teygðu á líkamanum. 

Stattu upp og teygðu úr þér. 

Hér eru einfaldar æfingar https://www.wikihow.com/Stretch

5) Andaðu djúpt. 

Staldraðu við nokkrum sinnum yfir daginn, til dæmis þegar þú þarft að fara á snyrtinguna eða þegar þú ert að keyra á milli staða og dragðu andann djúpt, minnst þrisvar sinnum í röð.  

6) Gerðu ráð fyrir hreyfingu í daglegu skipulagi. 

Það fyrsta sem við setjum til hliðar þegar annríkið hellist yfir er persónuleg hreyfing. En staðreyndin er sú að ef við hækkum púlsinn og tökum á því í stutta stund verður afkastagetan betri yfir daginn. Þú skalt því hugsa þig um áður en þú ráðgerir að sleppa líkamsræktinni vegna tímaskorts. 

Gönguferðir, sundferðir, jóga, hópíþróttir, lyftingar, qi gong, hjólreiðar, sjónsund, fjallganga og þannig mætti lengi telja. Eina sem þú þarft að gera er að velja eitthvað eitt ... og byrja.

Gangi þér vel.

Hrefna Hugósdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Fleiri pistlar