Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
4
mínútna lestur
Heilræði

Ertu út á túni í samskiptum við makann?

Manninum hefur tekist með flóknum aðferðum að komast til tunglsins en þegar kemur að farsælum ástarsamböndum, hefur enn ekki tekist að finna aðferð sem hentar öllum. Ég leyfi mér því að fullyrða að ástarsambönd eru flóknari en flóknustu geimvísindi heims. Og hver er ástæðan fyrir því? Ólík samskiptarfærni og væntingar eru þar fremst í flokki.

 Í samskiptum þurfum við nefninlega að treysta á persónulega færni til þess að skynja og túlka hvað er að eiga sér stað. Við erum í raun með ótrúlega magnað skimunarkerfi í samskiptum sem gefur okkur tækifæri til þess að komast hratt að niðurstöðu og mynda skoðun á fólki, aðstæðum og samtölum. Skimunarkerfið byggir á fyrri reynslu líkt og uppeldi, hefðum og gildum og nýtir þá þekkingu til að draga skjótar ályktanir í samskiptum. Staðreyndin er nefninlega sú að ef við þyrftum að vega og meta öll samskipti og samtöl frá grunni, yrði engum ágengt því hvert svar tæki líklegast marga daga í ígrundun.

Þegar kemur að ástarsamböndum, þurfa skimunarkerfi tveggja aðila að samræmast. Það þýðir að túlkun á aðstæðum og viðbrögðum þurfa vera í takt við makann. Þessi samræming skimunarkerfa þróast meðal annars í daglegum samskiptum. Þannig getur kærasti lært að þegar mikið álag er á kærustunni, þarf hann að sýna sérstaka nærgætni í samtölum. Eiginkona getur öðlast færni til þekkja hvenær eiginmaðurinn er líklegastur til þess að geta tekið þátt í samtölum sem eru krefjandi og tilfinningarík og í öðru ástarsambandi getur eiginmaður lært að þekkja líkamstjáningu konu sinnar þegar hún ,,er í stuði".  En þessi samþætting skimunarkerfa í ástarsamböndum eru oft og tíðum mjög flókin því fáir gefa sér tíma til að ræða persónulegar væntingar og langanir um árangursrík samskipti. 

 Þess í stað prófar fólk sig áfram í blindni með aðferðinni rétt eða röng hegðun? 

Þannig getur eiginkona lært að brandarar eru ekki til þess fallnir að létta stemninguna eftir rifrildi og kærasti lært að hrósin sem hann hefur tileinkað sér í samskiptum gegnum árin, eru alls ekki þau réttu þegar kemur að því að styðja við kærustuna.

Ef par ræðir ekki væntingar sínar um farsæl samskipti og treystir þess í stað á rétt eða röng hegðun  (sem er bæði mjög tímafrek og getur valdið tilfinningalegu uppnámi ) verður þróunin oft sú að fólk geymir innra með sér óleysta samskiptahnökra. Pirringur, vonbrigði, særindi eða ólíkar skoðanir sem fá ekki að komast út eru dæmi um hversdagsleg smáatriði sem safnast saman með tímanum og í stað þess að setjast niður og ræða málin, þróast samskiptin yfir í kýting, hroka eða rifrildi sem brýst út yfir smámunum (sem eru samt ekki smámunir heldur samansafn smáatriða yfir langan tíma sem breytast í stórt fjall á endanum). Slík samskipti eru ávísun á vanlíðan.

Hvað er þá til ráða? 

Í fyrsta lagi er mikilvægt að safna ekki óleystum samskiptahnökrum í poka og kasta þeim til makans í bræðingskasti. Þess konar árás mun ekki bæta ástarsambandið og hvorugt ykkar mun læra af samskiptunum. Par þarf að hafa hugrekki til þess að þora segja frá ef samskipti valda vanlíðan. Best er að tjá sig með aðferð sem við kjósum að kalla ég-skilaboð. Það er einföld tjáskiptaaðferð sem felur í sér að viðkomandi lýsir eigin upplifun á samskiptunum. Í stað þess að segja ,,þú hrósar mér aldrei þegar ég stend mig vel" er betra að segja ,,ég held það myndi gera rosalega mikið fyrir mig að fá hrós frá þér"

Í öðru lagi er mikilvægt að setja ekki upp væntingarvístölu í parsambandinu án þess að gefa makanum leiðbeiningar um í hverju það felst fyrir þér. Ræðið um það hverjar væntingar ykkar eru til stuðnings í erfiðum aðstæðum eða hvernig þið viljið upplifa ást og umhyggju frá makanum.

Í þriðja lagi skaltu nota spurningar til að auka skilning ykkar beggja. Það hefur engum tekist að lesa hugsanir annarra með góðum árangri og þú ert því að öllum líkindum ekki heldur að ná árangri í þeim efnum. Í stað þess að túlka hegðun eða orðræðu maka skaltu því frekar spyrja einfaldra spurninga líkt og ,,hvað áttir þú við þegar..?" ,,hvernig sérð þú þetta fyrir þér?" ,,þegar þú gerðir þetta, varstu þá að hugsa eitthvað sérstakt?"

Í fjórða lagi. Hlustaðu og ekki grípa fram í. Veltu því fyrir þér hversu oft þú hlustar á maka þinn með hálfum huga því á sama tíma er heilabúið þitt að keppast við að kokka upp snilldarsvar. Slík samskipti eru líklegri til þess að enda í rifrildi þar sem báðir aðilar telja sína skoðun vera heilagan sannleik. Prófaðu næst að veita maka þínum óskipta athygli og hlusta. Reyndu að átta þig á hans sjónarhorni og spurðu spurninga til að öðlast dýpri skilning. Það að hlusta án þess að mynda sér skoðun eða undirbúa svar er töfralausn í átt að farsælum samskiptum.

Þessi fjögur atriði virka kannski ekki eins og flókin geimvísindi en eru það samt. Með því að tileinka sér þau í ástarsambandi er grunnur lagður að góðum leiðarvísi í samskiptum ykkar.

Það eina sem þið þurfið að gera...er að hefjast handa.

Gangi ykkur vel.

Ragnhildur

 

 

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar