Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
3
mínútna lestur
Fjölskyldulífið

Sumarfrí fjölskyldunnar. Himneskt eða hræðilegt?

Þegar ég fer í sumarfrí ætla ég njóta lífsins, taka garðinn
í gegn, lakka gluggana, fara í tjaldútilegu og fjallgöngu, skoða hálendið,
rækta grænmeti og safna orkunni sem ég er búin að þurrka upp síðastliðna
vetrarmánuði. Ekki má heldur gleyma því að börnin mín eru líka í fríi þannig að
ég ætla að finna upp á óvæntum og skemmtilegum ævintýrum fyrir þau svo að
sumarið verði ógleymanlegt.

Eða hvað?

Ofangreind orðræða er dæmi um hugsanir sem læðast inn í heilabúið með hækkandi sól og skreyta dagdrauma vormánaða um hið fullkomna sumarfrí.
En ef við skoðum staðreyndir málsins þá er sumarfrí einungis lítið brotabrot af
árinu og alls ekki til þess fallið að sigrast á uppsöfnuðum verkefnalista eða
samviskubiti síðastliðinna mánaða.

Oft er sumarið mest krefjandi tími ársins fyrir
fjölskyldufólk því þá hverfur dagleg rútína. Í staðinn þarf að skipuleggja
námskeiðahald fyrir börnin á meðan foreldrar eru enn í vinnu, ræða þarf
fyrirkomulag við fyrrverandi maka ef fjölskyldan er samsett og jafnvel getur
par ekki tekið sumarfrí samtímis nema að hluta til. Draumurinn um að láta allt
gerast á þessum stutta tíma er því fljótur að renna í sandinn í
raunveruleikanum. En það er ekki þar með sagt að öll von sé úti.

Mikilvægt er að ræða væntingar fjölskyldumeðlima til sumarfrísins

Það er auðvelt að eiga notalegt sumarfrí í faðmi fjölskyldunnar
ef undirbúningurinn er góður. Það að ræða væntingar hvers og eins í
fjölskyldunni gagnvart því hvað hægt sé að gera í sumarfríinu er góð byrjun.
Hver og einn fær tækifæri til að leggja fram hugmyndir og þær síðan skoðaðar og
metnar á raunhæfan hátt með tilliti til aðstæðna og efna. Í öðru lagi eru
skapandi hugsunarháttur og skipulag góð verkfæri til að leggja grunn að
ánægjulegum stundum.

Í þriðja lagi, ef væntingar, frjó hugsun og skipulag er til
staðar, þá er dýrmætasti eiginleiki fjölskyldunnar að kunna að njóta
augnabliksins. Það að geta einsett sér að vera með fulla einbeitingu í
raunaðstæðum en ekki svamlandi í hugsunum fortíðar eða framtíðar er grunnur að
hamingjusömum minningum sem ylja notalega yfir vetrartímann.

 

Gleðilegt sumar!

 

 

 

 

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar