Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
7
mínútna lestur
Fjölskyldulífið

Ertu hlustandi eða reddari?

Hefur þú lent í því að makinn segi þér frá vandamáli eða krísu sem hann er að ganga í gegnum og á örskotsstundu ertu búin að hugsa upp lausn að vandamálinu. Þú kynnir hana sigri hrósandi fyrir makanum en einhvern veginn fellur hugmyndin í grýttan jarðveg. Makinn er jafnvel óánægður með lausnina og þú skilur ekki af hverju – þú sem ætlaðir bara að leggja þitt af mörkum og redda málunum.
Erum við alltaf að deila áhyggjum eða hugsunum í þeim tilgangi að fá ráð?

Svarið er nei. Oft þegar samtal á sér stað um ákveðið málefni og maki gefur ráð strax í upphafi getur hinn aðilinn upplifað það sem áhugaleysi eða skort á virðingu. Það leiðir til þess að sá sem deildi áhyggjum sínum fær ekki þá endurgjöf sem hann þurfti.

Staðreyndin er nefnilega sú að oft viljum við ekki fá leiðbeiningar um hvað sé best að gera eða hvernig heppilegast sé að bregðast við. Stundum vill makinn eingöngu fá eyrun þín lánuð í bland við áhuga og forvitni. Það að hlusta af athygli, spyrja nánar út í málavexti eða jafnvel endurorða til að ganga úr skugga um að skilningurinn sé réttur er oft og tíðum mun betri aðferðafræði en töfralausnin sem skaust upp í hugann. 

Það sem getur gerst í kjölfar þess að hlusta og ræða málin er að vandamálið minnkar – jafnvel án lausnar!

Það sem er sérstaklega áhugavert er að í mínu starfi undanfarin sex ár hef ég tekið eftir kynjamuni í þessum efnum – en það er alls ekki algilt. Konur eiga það til að vilja ræða málin í þaula og þá er oft viðleitni karlmannsins að redda málunum og finna lausn. „Reddingin“ verður því eins konar blíðuhót í hans huga og lögð fram í þeim tilgangi að gera gott en getur fyrir vikið snúist upp í andhverfu sína. 

Þess í stað og til að tryggja gott flæði samskipta í parsambandi er oft gott að hlusta og reyna skilja án þess að gefa ráð. 

Hér eru góðar leiðsagnarreglur í slíkum samtölum: 

1. Sýndu einlægan áhuga. Ekki vera með athyglina á öðrum hlutum eins og til dæmis tölvuskjá eða vera í símanum.

2. Gefðu til kynna að þú skiljir það sem maki þinn er að segja. Endurorðaðu frásögn hans til að fá staðfestingu á að þú skiljir rétt eða spyrðu spurninga til að skilja enn frekar málavexti.

3. Samþykktu afstöðu maka þíns. Ekki velja að sjá hina hliðina eða draga úr upplifun makans, slík afstaða getur unnið gegn því að fólk þori að segja frá sinni hlið.

4. Sýndu blíðuhót. Hvað hentar ykkar sambandi þegar kemur að blíðuhótum (bros, snerting, faðmlag, orð).

5. Sýndu tilfinningum maka þíns virðingu. Tilfinningalíf er mikilvæg undirstaða parsambands og því fyrr sem farvegur fyrir ólíkar tilfinningar er myndaður því betra verður sambandið.

Að lokum langar mig að taka tvær dæmisögur af stofunni um það hvernig á ekki að bregðast við í svona aðstæðum.

Síðasta daginn í sumarfríi sagði kona manni sínum frá því að hún kviði því að mæta í vinnuna daginn eftir. Þegar hann spurði hvers vegna, svaraði hún: „Æ, ég kvíði kannski ekki beint vinnunni ... heldur meira að ég syrgi sumarfríið sem var svo æðislegt hjá okkur og ég bara nenni ekki í rútínuna aftur með tilheyrandi stressi og fjarlægð okkar á milli.“ Maðurinn var ekki lengi að skella sér í „reddaragírinn“ og sagði „þú verður enga stund að venjast rútínunni.“ Og þar með lauk samtalinu þar til þau komu til mín. Með útskýringum og úrvinnslu tókst þeim að eiga samtalið aftur og nú með raunverulegum árangri. Hann fylgdi leiðsagnarreglunum og hún var tilbúin til að taka á móti blíðuhótum hans.

Seinni sagan átti sér stað hjá manni sem kom með konu sinni á stofuna og sagði frá þessu atviki. Hann átti að flytja kynningu í vinnunni sinni og var mjög stressaður. Hann sagði konu sinni frá því kvöldið áður að hann óttaðist að gleyma tölunum og líta út eins og kjáni. Konan hans var ekki lengi að leita í eigin ráðaforða og sagði við hann: „Það er best að þú takir vatnsglas með þér áður en þú stígur í pontu svo þú þornir ekki í munninum.“ Þetta var ágætt ráð fyrir hana – enda hafði hún töluverða reynslu af því að tala opinberlega og eini ótti hennar var að þorna í munninum. Í tilviki maka hennar var það alls ekki áhyggjuefnið og fyrir vikið upplifði hann afskiptaleysi og fjarlægð í samskiptunum. Þegar við fórum yfir þetta atvik og hún heyrði hans hlið lýsti hún mikilli skömm gagnvart því hvernig hún brást við. Hún gerði sér einnig grein fyrir því að þegar þau höfðu átt þetta samtal var hún ekki til staðar í huganum. Hún var nýbúin að fá sms frá vinnufélaga sem sat eftir í huga hennar og af þeim sökum veitti hún maka sínum litla athygli.

Boðskapurinn er því þessi: hlustaðu á maka þinn – taktu eftir orðunum og reyndu að skilja hans afstöðu. Ef þú ert ekki upplagður í samskipti segðu frá því í stað þess að þykjast sýna áhuga. Og að lokum, með því að bjóða makanum upp á óskipta athygli þína ertu að gefa fallega gjöf inn í sambandið þitt sem mun skila sér margfalt til baka.

Ragnhildur

p.s. bæði pörin gáfu mér leyfi til að nota dæmin þeirra.

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar