Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
4
mínútna lestur
Fjölskyldulífið

Hversdagsspjall og kynlíf

,,Við höfum bara ekkert til að tala um lengur" 

,,Ég er orðin óörugg/ur þegar við þurfum bara að spjalla um daginn og veginn... kann það varla lengur en ég sakna þess"

Þetta eru setningar sem ég heyri oft. Par sem á langa sögu saman og hefur rekið heimili með eða án barna, getur lent í því að verða uppiskroppa með umræðuefni þegar samtalið er ekki tengt praktískum málum.

 Ert þú búinn að fara í búðina?

Ætlar þú að hringja í rafvirkjan eða á ég að gera það?

Er komið að okkur að skutla í handboltann ?

Hvernig ættum við að mála eldhúsvegginn?

Hvað langar þig í matinn?

Allt er þetta gott og blessað, sérstaklega í samfélagi þar sem tíminn er af skornum skammti sökum vinnuskyldu og margvíslegra verkefna. Við höfum einfaldlega ekki tíma eða gefum okkur ekki tíma til að gleyma okkur í hversdagslegu spjalli. 

En getur verið að þetta hversdagslega spjall sé ótrúlega þýðingarmikið í heildarsamhenginu?

Svarið er já! 

Það vill nefninlega svo til að í slíkum samræðum náum við að aftengja okkur við praktísku hliðina og fáum í staðinn upplýsingar um það hvernig makinn hefur það, hvað er efst á baugi hjá honum þessa dagana eða hvort það sé jafnvel eitthvað að hrjá hann. Samtalið getur því orðið einskonar stöðuuppfærsla á leiðarvísinum um makann sem gerir þér kleift að bregðast við í samræmi við það. Hversdagsspjallið er líka mikilvægt því það gefur tækifæri til þess að meta hvort nándarþráðurinn sem tengir ykkur tvö sé ekki örugglega enn til staðar. Eruð þið ennþá að treysta hvort öðru fyrir hugsunum og líður ykkur vel í samtalinu.  

En hversdagsspjallið er ekki eingöngu samtalið sjálft því látbragðið sem fylgir með er líka mikilvægt. Að veita óskipta athygli og sýna það með svipbrigðum og líkamstjáningu gefur til kynna að þú sért til staðar fyrir maka þinn. Oft vill það nefninlega verða þannig að í annríkinu þá teljum við okkur trú um að það sé hægt að gera tvennt í einu. Hver kannast ekki við að ná spjalli í þvottahúsinu á meðan verið er að hengja upp eða þegar þið eruð bæði á leið í ból dauðþreytt eftir daginn. Þau samskipti eru fín, en gefa ekki jafn góða raun og meðvituð þátttaka í samskiptum.

 Hversdagsspjall er góður mælikvarði á líðan ykkar sem par og hvar í forgangsröðinni sambandið ykkar er.

Nú skaltu skoða þitt samband og veltu fyrir þér hvenær þið áttuð síðast hversdagsspjall sem tók lengri tíma en tvær mínútur? Ef þú finnur gott dæmi, skaltu velta þessum spurningum fyrir þér:

1) Fengu báðir aðilar fái tækifæri til að segja frá? Stundum er samskiptakerfið með þeim hætti að einn tjáir sig nánast daglega og fær til þess svigrúm á meðan hinn er ,,of kurteis" og lætur sínar hugsanir sitja á hakanum.

 2) Bjóða báðir aðilar upp á hlustun og óskipta athygli  (kinka kolli, mynda augnsamband ofl.)

3) Er traust og svigrúm til þess að viðra viðhorf sín og skoðanir án þess að hinn aðilinn dæmi eða gagnrýni. Hér eru margir sem festast í ráðgjafahlutverkinu (sjá pistil Ertu hlustandi eða reddari)

Þannig að útgangspunkturinn er þessi: Samtalið um hversdagslífið er það sem tengir ykkur saman í annríkinu. Þannig að ekki týna því. 

 

Að lokum ætla ég að gefa dæmi um skemmtilegar aðferðir til þess að endurvekja hversdagsspjallið (ef það hefur verið í ládeyðu) eða til þess að betrumbæta það.

1) Hvað var skemmtilegast við daginn? Hér þarf annar aðilinn að lýsa deginum og það eina sem hinn aðilinn má gera er að spyrja spurninga til þess að fá ítarlegri svör. Ekki fara inn í samtalið með þessari setningu ,,en veistu hvað gerðist hjá mér!!" Þarna er sjónarhornið farið frá þeim sem var að tala. 

2) Hvernig leið þér í síðustu viku? Það að nota sögnina ,,að líða" býður upp á tækifæri til að lýsa huglægum þáttum ekki bara praktískum. Þetta krefst æfingar.

 3) Hvað heldur/ eða vilt þú að við verðum að gera eftir akkúrat ár? Hér er hægt að láta hugann reika en undir niðri eru oft dulin markmið sem komast upp á yfirborðið.

4) Gerið upp síðastliðina 3-6-9-12 mánuði. Ef þið hafið nægan tíma (skemmtilegt á stefnumóti t.d. út að borða) þá er gaman að rifja upp síðastliðna mánuði. Hvað vorum við að gera? Hvað var að gerast í umhverfinu? Hvernig leið okkur sem einstaklingar? Hvernig leið okkur sem pari? Hvaða breytingar hafa átt sér stað á þessu tímabili? Þetta er oft skemmtileg hugsanaæfing og krefst samvinnu við að rifja upp atburði og líðan

 (,,janúar... já það var þegar þú gleymdir kökunni í ofninum og brunalyktin var marga daga að fara úr húsinu... febrúar...þá áttum við góð stund í dagsferðinni okkar í Sólheima ... mars..þá áttum við stóra rifrildið um sumarfríið").

 Allt þetta er umræðupunktar sem báðir aðilar hafa eflaust skoðun á og því hægt að gleyma sér í áhugaverðu spjalli sem á sama tíma tengir ykkur betur saman. 

Í bláendann er gott að bæta við rúsínunni í pylsuendanum því rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem á góð og innihaldsrík dagleg samskipti, stundar oftar og betra kynlíf. Hversdagsspjallið er því forvörn fyrir krefjandi tíma og forleikur að betra kynlífi. 

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar