Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
6
mínútna lestur
Fjölskyldan - Barnauppeldi

Mikilvægi morgunrútínu hjá fjölskyldum

Fjölskyldumorgnar geta verið snúnir þegar það þarf að  koma ungum í leikskóla eða skóla á tilsettum tíma. Sumir eiga auðvelt með að vakna á morgnana meðan aðrir ná varla að lyfta augnlokunum. Það vill svo til að hjá mínum fjórum börnum á helmingurinn mjög auðvelt með að vakna en hinum helmingnum er það öllu erfiðar. Öll þurfum við að vera farin út klukkan átta og því dugir ekkert minna til en gott skipulag og hraðar hendur.

 Ég hef prófað misgóðar aðferðir, meðal annars verið ströng, pirruð eða sett alla ábyrgðina á þau en ekkert af því hefur skilað fjölskyldumeðlimum ánægðum út í daginn. En eftir margra ára tilraunamennsku er ég loks búin að finna út það sem virkar ... að minnsta kosti um sinn.

 Ég þarf að vera eins og þjálfari sem hefur gaman af starfinu sínu og flokkar hvert verkefni niður í smáeindir.  

1. Undirbúningur. Kvöldið áður er ég yfirleitt búin að finna til föt fyrir tvíburana og ég hvet elsta strákinn til að gera slíkt hið sama. Unglingsstúlkan sér alfarið um sig sjálf. Ég er líka yfirleitt búin að taka úr uppþvottavélinni eftir kvöldmatinn og finna til skálar fyrir hafragrautinn.

2. Vakningin. Eldsnemma hendist ég sjálf á fætur til að svala hreyfiþörf minni og á slaginu sjö er ég komin aftur heim.  Þá hefst rútínan og ég set mig í stellingar fyrir þjálfarahlutverkið. Ég geng á herbergin, býð góðan daginn, dreg upp gardínur og fer hratt yfir veðurfarslýsingu dagsins. Ótrúlegt hvað allir Íslendingar, ungir sem aldnir hafa mikinn áhuga á veðri. Mér tekst alltaf að opna nokkur augu með því. 

3. Fara í föt og búa um rúm. Ég tilkynni tvíburunum að að tímataka sé hafin. Tímatakan gengur út á það að þeir klæði sig í föt og búi um rúm á meðan ég fer í sturtu. Ég reyni yfirleitt að flýta mér mjög mikið sem setur skemmtilega pressu á að þeir drífi sig í gang. Stundum þegar ég veit að morguninn er erfiður, hrópa ég úr sturtunni ,,ca 30 sek!!" og þá detta þeir í gírinn, að minnsta kosti morgunhressi tvíburinn. Hinn er lengur úr draumalandinu og þarf því oft sértæka þjónustu í formi persónulegrar hvatningar og stuðnings.

 4. Borða morgunmatinn. Ég set yfirleitt tónlist af stað (þessa dagana erum við að hlusta á acoustic hits playlist) á meðan ég útbý graut. Hægt og rólega fara ungar að týnast inn í eldhús og ennþá eru nokkur augu lokuð. Ég gef vatnsglös og síðan eru afhentar lýsistöflur og fjölvítamín sem eru dýrafígúrur. Fyrsta umræðuefnið er því oft hvaða fígúra kom upp úr boxinu. Það kemur reglulega fyrir að einn í hópnum er verulega morgunfúll og þá er dýrafígúraumræðan oft til þess fallin að draga fram smá bros. Elskulegi unglingspilturinn er alltaf síðastur að borðinu og hefur morgunþjálfarinn veitt honum svigrúm til þess, þó innan skynsamlegra marka. Á meðan strákarnir borða, græja ég vatnsbrúsa og tek út nestisboxin. 

 5. Tiltekt og brottferð. Eftir rúmlega þrjár áminningar um að setja skálina í uppþvottavélina (þar sem ég raunverulega hljóma eins og hressasti þjálfari í heimi) er komið að undirbúningi fyrir brottför. Hér þarf ég yfirleitt að ganga úr skugga um að allir séu með rétta hluti fyrir daginn. Þar sem þeir eru ennþá miklir sveimhugar, þarf ég að takmarka ábyrgðina við það að þeir yfirfari töskur og yfirhafnir með því að svara kalli. Eftirfarandi listi er notaður:

*skólataska
*íþróttaföt
*hljóðfæri
*nestisbox 
*úlpa, húfa og skór (já, það hefur einn farið án þess að klæða sig í skóna).

Þetta er góður tímapunktur til að fara yfir hvort eitthvað hafi gleymst upp í skóla eða á æfingu daginn áður. Þið kannski þekkið það en afföll af úti- og íþróttafatnaði getur verið töluverður á einum vetri. Í okkar tilfelli gleymist nær alltaf að minnsta kosti ein flík upp í skóla daglega og það skondna er að við foreldrarnir erum alltaf jafn hissa ( held þeir hafi þetta frá pabba sínum...)

6. Kveðjustund. Loks í dyrunum er koss á kinn og knús, tja eða pepp ef sumir eru ennþá fúlir og svo er lagt af stað. Ég loka dyrunum, hendi mér úr þjálfarahlutverkinu og bíð spennt eftir kaffibollanum í einrúmi. 

Þessir sex punktar taka 40 mínútur og ganga oftast (ekki alltaf) snuðrulaust fyrir sig. Þó ber að hafa í huga að bara síðast í morgun var einn svo ofsalega utan við sig að allt fór á hliðina... sem er mannlegt.

En útgangspunkturinn er þessi: Börn þurfa rútínu á morgnana og það er í verkahring forráðamanns að sníða hana. Reyndu að búa til rútínu sem tekur sérstaklega á því sem reynist barninu þínu erfitt og finndu leið sem er líkleg til árangurs. Mundu líka eftir því að sníða rútínu sem gefur þér ánægju af samvistunum því annars eru allar líkur á því að hún haldist ekki. 

Og rétt í blálokin.. ekki dæma þau of hart ef það er erfitt að vakna... við höfum öll verið þar og við vitum að skammir eða gagnrýni skilar engum árangri. Gangi okkur vel 

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar