Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
3
mínútna lestur
kjarninn

Hvað er Auðnast

„Hvernig getum við eflt heilsu og þar með vellíðan íslendinga?“ Þetta var spurning sem við Hrefna spurðum okkur með reglulegu millibili í gegnum árin en ákváðum að láta verkin tala vorið 2013. Tveimur árum áður höfðum við sest saman á skólabekk í þeim tilgangi að læra um mismunand fjölskyldugerðir og meðferðarvinnu. Vorið 2013 markaði því tímamót í okkar lífi og síðan þá hefur ævintýrið þróast.

Við Hrefna erum æskuvinkonur og fljótlega eftir framhaldsskóla fórum við að hafa mikinn áhuga á heilsutengdum efnum. Hrefna fór í hjúkrunarfræði en ég í sálfræði og ásamt því að stofna fjölskyldu og koma undir okkur fótunum eyddum við drjúgum tíma í það að ræða heimsins mál. Við vorum ekki alltaf sammála um margvíslega þætti eins og heilbrigðisþjónustu landsins eða hvernig ætti að sporna gegn offitufaraldri í vestrænum heimi en alltaf vorum við sammála um eitt; velferð samfélags er háð heildrænni heilsu fólksins sem þar býr.

Staðreyndin er nefnilega sú að velferð eða vellíðan er ekki eingöngu skilgreind út frá því að vera laus við heilsubrest. Fólk þarf að hafa fyrir því að upplifa vellíðan í eigin skinni, sjá jákvæðari hliðar lífsins, þekkja sína styrkleika eða hámarka árangur í einkalífi og starfi. Til þess þarf þekkingu, færni, þjálfun og leiðsögn. Við hjá Auðnast viljum vera leiðandi í því starfi. Við viljum vera öflugt þekkingarfyrirtæki þegar kemur að heildrænni heilsu, hvort sem er í einkalífi eða á vinnustaðnum. Markmið okkar er annars vegar að fræða um mikilvægi góðrar heilsu en jafnframt kortleggja og markmiðssetja þarfir bæði einstaklinga og fyrirtækja.

 Markmið okkar er að auka þekkingu í samfélaginu á heildrænni heilsu. Það er hornsteinn að velferð samfélagsins.

Og það höfum við gert frá árinu 2013. Með þekkingu í farteskinu og eldmóð í hjarta lögðum við af stað með einn fyrirlestur í þeim tilgangi að vekja fólk til ábyrgðar og umhugsunar um eigin heilsu. Í stuttu máli þá sló fyrirlesturinn í gegn og hratt og örugglega fengum við til liðs við okkur fólk og fyrirtæki sem voru tilbúin að taka þátt. Út frá því spratt heilsufarsmatið okkar og síðan koll af kolli fóru verkefnin að verða fjölbreyttari og stærri. Og við erum enn að vaxa.

Heilbrigður einstaklingur í hamingjuríku fjölskyldulífi er grunnur að heilsteyptara samfélagi.

Með vaxandi hraða í samfélaginu hefur heilsu fólks hrakað. Við þurfum því að taka meðvitaða ákvörðun um það að staldra við og fara að huga að heilsunni í víðtækum skilningi. Ef þú vilt taka þátt, skráðu þig á póstlista Auðnast, hafðu samband, lestu fróðleikinn okkar og byrjaðu í dag. Það er til mikils að vinna og saman getum við gert gott samfélag betra.

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar