Hrefna Hugósdóttir
Hjúkrunarfræðingur
26/9/2016
·
5
mínútna lestur
Fjölskyldan - Barnauppeldi

Leiðarvísir barnanna

Það er óskrifuð regla að ef þú fjárfestir í veraldlegum hlutum, hvort sem það er sláttuvél, kommóða eða bifreið, þá yfirleitt fylgir lítill leiðarvísir um samsetningu eða viðhald. Í eldamennsku er auðvelt að leita í hafsjó uppskrifta sem aðrir hafa deilt með heiminum, einfaldlega til þess að útkoman verði ákjósanleg. Þegar fólk velur að eiganast hund er það nánast skylda að sitja námskeið um heppilegar uppeldisaðferðir. í raun er sífellt verið að einfalda lífið fyrir okkur með leiðbeiningum til þess að hver og einn þurfi ekki að finna upp hjólið. En stundum er það í okkar höndum að semja leiðbeiningarnar, sérstaklega þegar kemur að börnum og uppeldinu.

Við uppeldi barnanna er það hlutverk foreldra að finna aðferðir sem hentar vel fyrir barnið. Aðferðafræðin þarf að vera til þess fallin að styrkja persónulega eiginleika en á sama tíma efla það sem vantar upp á. Slíkt gerir enginn án þess að hafa framtíðarsýn og skipulag.

Það er nefninlega mýta að uppeldi sé okkur náttúrlegt nema að því leyti að við vitum flest að börn þurfa næringu og skjól. Aðrar hugmyndir mótast af ríkjandi samfélagsviðmiðum og fjölskylduarfi. En líkt og með allt annað þarf aðferðarfræðin að vera sniðin að persónulegum þörfum barnsins – það gengur ekki það sama fyrir alla.

En líkt og með allt annað gengur sama barnauppeldi ekki fyrir alla. Við þurfum að einstaklingsmiða uppeldið.

Og hver er best til þess fallinn að semja leiðbeiningarnar – enginn annar en þú forráðamaður góður!

Hvernig er þá best að byrja?

Það er mjög heppilegt að lesa sér til um ýmsar aðferðir sem hafa reynst vel, sitja námskeið og ræða við nánustu vini og kunningja. Öllum aðferðum þarf líka að fylgja markmið. Hvaða eiginleika viltu efla í þínu barni, hverju viltu ná fram í uppeldinu og hvar þarftu sérstaklega að styðja við. Þessi markmið eru undirstaða leiðarvísisins og er mjög heppilegt að hafa hann skriflegan. Ef par er að ala upp barn er samtalið þeirra á milli mjög mikilvægt. Það að vera samstíga í markmiðum og aðferðum hjálpar barninu að upplifa skýr skilaboð á sama tíma og það viðheldur jafnvægi á heimilinu.

Þeir þættir sem gott er að hafa í huga þegar verið er að semja leiðarvísi fyrir barnið eru:

1) Hvaða eiginleika tel ég mikilvægt að draga fram í mínu barni: umhyggju, heiðarleika, gleði, geta sett sig í spor annarra, tilfinningastjórnun og umburðarlyndi svo fátt eitt sé nefnt.

 2) Hvaða áherslu legg ég á í lífsviðhorfi, til dæmis í menntun, hamingju, peningum, samkennd og fleira.

 3) Hvernig vil ég að barnið mitt vinni úr erfiðum aðstæðum eða átökum.

 Heppilegt er að hafa leiðarvísinn skriflegan með fáum mikilvægum markmiðum.

Þegar leiðarvísir með tilheyrandi markmiðum er tilbúinn þurfa foreldrar að finna leiðir til þess að „leggja þau inn“ hjá barninu. Besta aðferðin til þess er að fylgja markmiðunum í eigin hegðun og orðræðu, eða eins og málshátturinn góði segir: það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ennfremur er samtalið við barnið mikilvægt. Einfaldar dæmisögur úr daglega lífinu (hvernig þið tókust á við rifrildi við besta vininn þegar þið voruð yngri, hvernig fyrsta ástarsorgin var, þegar þið gerðuð góðverk og margt, margt fleira). Slíkar sögur eru til þess fallnar að fræða barnið um mismunandi litróf lífsins og hvernig heppilegt er að leysa úr aðstæðum. Það að venja sig á það að ræða við barn um málefni daglegs lífs eykur bæði þroska og víðsýni en kennir jafnramt leið til þess að koma hugsunum sínum í orð.

Barnauppeldi er eitt af þessum mikilvægu hlutverkum í lífinu – farðu vel með það og sýndu ábyrgð með því að vanda vel leiðarvísinn.

Hrefna Hugósdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Fleiri pistlar