Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
26/9/2016
·
4
mínútna lestur
Heilræði

Viltu ná árangri?

Daglega eru margir sem burðast með hugsanir líkt og

 ,,bara ef ég gæti...þá myndi ...." 

,,af hverju tekst mér ekki að ..." 

,,á morgun ætla ég að breyta og ...." 

Þessar hálfkláruðu setningar eru oft vísbending um löngun til að ná árangri eða verða ánægðari, hvort sem er í einkalífi eða atvinnulífi. Staðreyndin er nefninlega sú að flesta langar að til að setja sér markmið um árangur en oft skortir aðferð til að koma hugsunum í framkvæmd. Sumir hreinlega gleyma að gera ráð fyrir því að árangur og breytingar þarf að skipuleggja með góðum fyrirvara og skýrum aðferðum. Ef þú ert ein/n af þeim sem hefur löngun til að gera breytingar (bæði mjög smáar og ristastórar) þá skaltu lesa áfram.

Fyrst af öllu skaltu staldra við hugsa þér markmið. Það þarf að vera í samræmi við viðmið þín og gildi, þarf að henta þér á þeim tímapunkti sem þú ert á í lífinu og það þarf að hafa persónulegan tilgang. Byrjaðu smátt á meðan þú ert að tileinka þér aðferðina.

Þegar þú hefur fundið markmið er mikilvægt að skrifa það niður. Já! Ekki svindla og láta það svamla um í huganum ásamt öllum hinum þúsund hugsunum sem eru líka að reyna ná athygli þinni. Ef fólk gefur sér tíma til að skrifa niður markmið sín þá verða þau bæði raunverulegri, áþreifanlegri og vænlegri til árangurs. En hvernig er þá best að skrifa þau niður? Við hjá Auðnast höfum tileinkað okkur SMART markmiðasetningu sem kennir fólki HVERNIG er best að skrifa niður markmiðin.

SMART aðferðafræðin kennir fólki að setja sér skrifleg skammtímamarkmið, frammistöðumarkmið og langtímamarkmið.

SMART er skammstöfun og stendur fyrir hugtökin: Specific, Measurable, Achievable, Relevant og timebound. Íslensk þýðing á hugtökunum er

1) Specific / Sértæk.

Það felur í sér að setja sér skýr markmið, Hvað vil ég gera? Hver er tilgangur markmiðsins? Hver er ávinningur af markmiðinu? Hvar mun markmiðið fara fram og með hverjum? Dæmi um markmið væri að ganga upp Esjuna eftir sex mánuði. Tilgangurinn er að efla þol, auka hreyfingu en á sama tíma njóta náttúrunnar. Ávinningurinn er betri heilsa.

2) Measurable / Mælanleg. Hér þarf að hafa í huga hvenær og hvernig ætlunin er að ná markmiðinu.

Dæmi um mælanlega þætti í tengslum við Esjugönguna væru gönguferðir tvisvar sinnum í viku á jafnsléttu og einu sinni í mánuði gönguferð upp á fjall.

3) Achievable / Almennileg eða framkvæmanleg. 

Hér er gott að svara spurningunni hvernig ætlunin er ná markmiðinu og hversu raunhæft það er að ná þvi miðað við takmarkanir í lífinu (er til dæmis tími af skornum skammti eða aðrar ytri aðstæður sem geta haft áhrif). Mörg lítil undirmarkmið sem sniðin eru að frammistöðuárangri og innan hæfilegs tímaramma er það sem skiptir máli hér.

4) Releveant / Raunhæft eða viðeigandi. 

Það er ákjósanlegt að kanna hvort markmiðið sé í samræmi við önnur hversdagsleg verkefni og þarfir hverju sinni. Stundum setur fólk sér markmið sem það heldur að sé viðeigandi en þegar betur er að gáð, er það ekki raunhæft í framkvæmd eða viðeigandi miðað við þær athafnir sem eru ríkjandi í hversdagslífinu. Til auka líkur á því að markmið náist er því gott að skoða heildarsamhengi lífsins og núverandi ástand áður en lokaákvörðun er tekin.

5) Timebound / Tímasett. 

Öll markmið, bæði stór og smá þurfa að vera tímasett. Það felur í sér að tímsettur endapunktur er á lokatakmarkinu og nákvæmar millitímasetningar á frammistöðumarkmiðum. Í Esjugöngunni gæti lokatakmarkið verið laugardagur eftir nákvæmlega sex mánuði og fram að því væru þrjú frammistöðumarkmið með tveggja mánaða millibili. 
Frammistöðumarkmið nr. 1 gæti verið eftir tvo mánuði: Geta til að ganga rösklega í halla í klukkustund á göngubretti. 
Frammistöðumarkmið nr. 2 eftir fjóra mánuði: Geta til að ganga rösklega úti í klukkustund með hæfilegri hækkun.

Að lokum er gott að muna. Það er alltaf erfiðast að læra setja sér markmið og skrifa þau niður. Ef þú kemst í gegnum það verkefni er eftirleikurinn einfaldur, því með góðu markmiðaskipulagi verða verkferlarnir skýrir og það eina sem þarf að gera ... er að fara eftir þeim :)

Byrjaðu þvi í dag og settu þér markmið til dæmis um:

*Hjónabandið

*Neyslumynstur fjölskyldunnar

*Hreyfingu

*Svefninn

*Samskipti við stórfjölskylduna

*Minni skjátíma 

*Persónulegar gæðastundir

*Meiri árangur í vinnunni

Gangi þér vel

Ragnhildur Bjarkadóttir
Sálfræðingur
Fleiri pistlar